Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 569/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 569/2022

Mánudaginn 27. febrúar 2023

A og B

gegn

Barnaverndarnefnd P

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 5. desember 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar P frá 8. nóvember 2022 vegna umgengni fósturdóttur þeirra, D, við föður hennar, E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar P. Stúlkan hefur verið í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum frá 1. september 2022 en hefur búið á fósturheimilinu frá desember 2020. Kærendur eru fósturforeldrar stúlkunnar. Kynfaðir stúlkunnar var, ásamt móður, sviptur forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms P þann 27. janúar 2022. Móður var synjað um áfrýjunarleyfi til Landsréttar þann 15. mars 2022 og féll faðir frá áfrýjun til Landsréttar þann 25. ágúst 2022.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar P þann 8. nóvember 2022. Fyrir þeim fundi lá fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 26. október 2022. Úrskurður var kveðinn upp í málinu þann 8. nóvember 2022. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd P ákveður að D, skuli hafa umgengni við föður sinn, E, fjórum sinnum á ári, í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti og í húsnæði barnaverndaryfirvalda á O í febrúar, maí, ágúst og nóvember ár hvert. Fósturforeldrum er frjálst að vera viðstaddir umgengni kjósi þeir það. Skilyrði fyrir umgengni er að faðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati starfsmanna.“

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 5. desember 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 9. desember 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar P ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar P barst nefndinni þann 21. desember 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. desember 2022, var hún send lögmanni kærenda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og málinu vísað til nýrrar málsmeðferðar. 

Hvað varðar málavexti eins og þeir horfa við kærendum, vísast til málavaxtalýsingar í hinum kærða úrskurði og greinargerðar starfsmanna Barnaverndar P. Kærendur taki undir þá lýsingu sem þar kemur fram.

Stúlkan hefur verið í fóstri hjá kærendum óslitið frá því í desember 2020, fyrst í tímabundnu fóstri en frá 1. september 2022 í varanlegu fóstri. Í gögnum málsins komi fram og sé óumdeilt að fóstrið hafi gengið afar vel og stúlkan hafi myndað sterk og kærleiksrík tengsl við kærendur.

Á meðan fóstrið hafi verið tímabundið hafði kynfaðir stúlkunnar umgengni við hana mánaðarlega en gengið hafi á ýmsu við framkvæmd þess eins og nánar sé lýst síðar í kæru þessari og í gögnum málsins.

Í hinum kærða úrskurði, dags. 8. nóvember 2022, hafi tíðni umgengni í varanlegu fóstri stúlkunnar verið ákveðin í fjögur skipti á ári, meðal annars með vísan til þess að einu tengsl stúlkunnar við upprunafjölskyldu hennar væru við kynföður. Þá hafi faðir lýst því yfir að hann muni taka málið upp að nýju með það að markmiði að fá forsjá stúlkunnar til sín. Þá hafi verið ályktað að þar sem réttur kynföður til endurskoðunar fósturráðstöfunar sé til staðar í 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 verði ekki litið á fósturráðstöfun stúlkunnar sem varanlega.

Stúlkan sé nýorðin X ára en hafi þurft að þola margt á stuttri ævi, meðal annars endurtekið tengslarof við kynforeldra, vanrækslu á heimili kynforeldra sinna, vistun utan heimilis og fleira.  Stúlkan sé því viðkvæm og í mikilli þörf fyrir öryggi og stöðugleika.

Á fundi Barnaverndarnefndar P hinn 8. nóvember [2022] hafi verið úrskurðað um umgengni stúlkunnar við kynföður, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Umgengni hafi verið ákveðin tvær klukkustundir í senn fjórum sinnum á ári. Auk þess hafi verið ákveðið að umgengni skyldi vera undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndaryfirvalda á O. Þá væri það skilyrði fyrir umgengni að kynfaðir væri edrú og í jafnvægi.

Kærendur byggi kæru sína á því að inntak þeirrar umgengni sem úrskurðað hafi verið um geti ekki þjónað þeim markmiðum sem fóstrið byggi á, þ.e. að um varanlegt fóstur sé að ræða sem standa eigi til 18 ára aldurs stúlkunnar og markmið þess að stúlkan aðlagist fósturfjölskyldunni sem sinni eigin.

Kærendur benda á ítrekaðar forsendur í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála er varði umgengni fósturbarna við foreldra sína um að haga verði umgengni þannig að fósturbörnin fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni, enda sé markmið varanlegs fósturs að tryggja til frambúðar umönnun barnanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Þá hafi einnig ítrekað verið byggt á því af hálfu úrskurðarnefndar að líta beri til þess að með umgengni kynforeldra við fósturbörn sé ekki verið að reyna styrkja tengsl þeirra, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að börnin þekki uppruna sinn. Þá hafi einnig í úrskurðum nefndarinnar verið vísað til þess að það séu ríkir hagsmunir fósturbarna að tengslamyndun þeirra við fósturforeldra sé ótrufluð.

Þannig byggi kærendur á því að það geti í raun ekki verið neinn ágreiningur um hvernig best skuli hagað umgengni í varanlegu fóstri og telji þau að þau grundvallarsjónarmið eigi vel við í máli þessu. Vilji þau standa vörð um réttindi stúlkunnar til að ná stöðugleika og ró í fóstrinu sem ætlað sé að vari til 18 ára aldurs.

Þá vilji kærendur sérstaklega mótmæla þeirri ályktun sem fram komi í forsendum hins kærða úrskurðar að fóstrið sé ekki varanlegt vegna heimildar í 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 fyrir forsjársvipt foreldri til að freista þess að fá forsjá til baka að nýju.

Ljóst megi vera að skýr greinarmunur sé gerður á tímabundnu fóstri og varanlegu fóstri í íslenskum rétti, sbr. 2. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og þrátt fyrir tilvist 34. gr. laganna sem veitir þrönga undanþágu til kynforeldra um að leita endurskoðunar á forsjársviptingarráðstöfunum fyrir dómstólum, verði það ekki fullyrt að þar með sé varanlegt fóstur barna forsjársviptra foreldra í raun ekki varanlegt heldur tímabundið. Þá telja kærendur það þannig varhugavert að leggja eigi til grundvallar sjónarmið um sameiningu barns og kynforeldra þegar teknar séu ákvarðanir um umgengni þeirra og samvistir á meðan á varanlegu fóstri stendur. 

Eins og lýst sé í gögnum málsins hafi umgengni ekki alltaf gengið vel, stúlkan hafi ekki viljað fara, hafi grátið og neitað að vera skilin eftir hjá kynföður og ítrekað hafi þurft að slíta umgengni vegna vanlíðanar stúlkunnar. Ef stúlkan sé innt eftir því hvort hún vilji hitta kynföður sinn svari hún jafnan neitandi. Eftir talsverða þrautagöngu með umgengnina allt þetta ár virðist ágætur stöðugleiki vera kominn í umgengnina sjálfa, sbr. lýsingar í eftirlitskýrslum, en kærendur leggja áherslu á að það sé meðal annars tilkomið vegna vinnu þeirra sjálfra við að styrkja stúlkuna fyrir umgengni en í kjölfarið eigi hún erfitt og hafa þau verulegar áhyggjur af áhrifum tíðrar umgengni á líðan stúlkunnar sem og áhrif þess á öryggi hennar í fóstrinu og tengsl hennar við þau.

Kærendur byggja þannig sérstaklega á því að svo virðist sem umgengni við kynföður sé að hafa áhrif á öryggi tengsla hennar við kærendur, sbr. lýsingu þeirra í tölvupósti, dags. 27. september 2022, sem vísað sé til í greinargerð starfsmanna til Barnaverndarnefndar P. Þar komi fram að stúlkan sé í samtölum við kærendur að velta því fyrir sér hvort hún komi ekki heim aftur ef hún fari að hitta „E pabba“ og hún spyrji þau endurtekið hvort þau séu ekki örugglega ennþá foreldrar hennar. Þá lýsa kærendur einnig mikilli vanlíðan stúlkunnar í tengslum við umgengnina eftir að hún sé afstaðin, sem staðfestist af umsögn starfsmanna leikskóla sem lýsa því að hún sé „lítil í sér“ eftir umgengni, sbr. upplýsingar frá leikskóla, dags. 17. ágúst 2022.

Ítrekað sé að stúlkan hafi búið við mikinn óstöðugleika á meðan hún hafi verið í umsjá kynforeldra sinna en þau eigi bæði langa sögu um vímuefnaneyslu. Stúlkan hafi fyrst verið vistuð utan heimilis kynmóður sinnar rétt um eins árs gömul, eða í nóvember 2019. Hún hafi þá farið í umsjá kynföður og hafi ætlunin verið að sú vistun myndi standa í sex mánuði, en vistuninni hafi lokið eftir tæpan mánuð vegna neyslu kynföður. Telja kærendur því alveg óljóst hvort frumgeðtengsl hafi myndast og telja raunar að tengslin séu óljós og óörugg. Það komi einnig fram í niðurstöðu matsgerðar sem lögð hafi verið fram í forsjársviptingarmálinu gegn kynforeldrum. Í matinu sé því lýst að vegna síendurtekinna rofa á samskiptum kynföður og stúlkunnar hafi tengsl stúlkunnar við kynföður þróast í að vera blendin eða óörugg.

Þannig byggi kærendur á því að ekkert bendi til að stúlkan sé í þörf fyrir svo tíða umgengni sem hinn kærði úrskurður segir til um heldur þvert á móti hafi hún, í ljósi brotinnar forsögu og erfiðra aðstæðna hjá kynforeldrum, mun ríkari þörf fyrir frið og ró í fóstrinu og tíma til að aðlagast fjölskyldunni, enda sé markmið vistunarinnar að hún tilheyri fjölskyldu kærenda til frambúðar. Í þeirri fjölskyldu eigi hún foreldra, systkini, afa og ömmur, frændur og frænkur og svo framvegis.

Kærendur byggi jafnframt kæru sína á því að þær forsendur, sem fram koma í hinum kærða úrskurði um að umgengni við kynföður sé eina tenging hennar við upprunafjölskyldu sína, séu rangar. Kynmóðir hafi nú nýlega óskað eftir umgengni við stúlkuna og lýsir högum sínum sem breyttum og betri og sé nú búsett á O. Því sé fyrirséð að barnaverndarnefnd muni úrskurða um umgengni stúlkunnar við kynmóður á næstu vikum.

Þá sé þess getið að kærendum sé vel kunnugt um grundvallarréttindi hvers barns til að þekkja uppruna sinn og njóta beinna samskipta og tengsla við líffræðilega foreldra sína. Þau virða þann rétt stúlkunnar og munu ávallt leitast við að styðja við umgengni hennar við upprunafjölskyldu sína svo að hún megi njóta þeirra réttinda.

Að lokum byggi kærendur kæru sína á því að ekkert hafi komið fram í málinu sem réttlæti umgengni umfram það sem hefðbundið hafi verið í varanlegu fóstri, þ.e. tvisvar á ári eins og tillaga starfsmanna Barnaverndar P segði til um.

Með vísan til alls framangreinds krefjast kærendur þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá Barnavernd P svo að leggja megi nýtt mat á hagsmuni stúlkunnar með tilliti til tíðni umgengni hennar við kynföður. Verði farið fram á það þar að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengni verði tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn, en önnur ákvæði hins kærða úrskurðar standi óhögguð.


 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar P

Í greinargerð Barnaverndarnefndar P kemur fram að faðir stúlkunnar hafi verið sviptur forsjá dóttur sinnar í Héraðsdómi P þann 27. janúar 2022. Faðir áfrýjaði málinu til Landsréttar en féll frá áfrýjun málsins þann 25. ágúst 2022 og sé því ekki stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá föður. Stúlkan hefur verið í umsjá fósturforeldra sinna í tvö ár, eða frá desember 2020 og í varanlegu fóstri þar frá 1. september 2022.

Starfsmenn Barnaverndar P bókuðu á meðferðarfundi starfsmanna þann 28. september 2022 um umgengni föður við stúlkuna eftir að endanleg niðurstaða í forsjársviptingarmáli á hendur föður lá fyrir. Í bókun komi fram að mikið rót hafi verið á stúlkunni í kringum umgengni og að umgengni hafi valdið stúlkunni vanlíðan og skapað hjá henni óöryggi. Þá hafi það komið fram í frásögn kærenda að stúlkan hafi sýnt mikla vanlíðan og jafnvel neitað að hitta föður sinn í umgengni. Umgengni var áður einu sinni í mánuði í T á meðan forsjársviptingarmál á hendur föður hafi verið rekið fyrir dómstólum en ákveðið hafi verið í júní 2022 að færa umgengni á O þar sem stúlkan sé búsett á heimili fósturforeldra. Í eftirlitsskýrslu starfsmanna barnaverndar á O, dags. 5. júlí 2022, komi fram að stúlkan hafi mætt illa stefnd í umgengni en náð að jafna sig. Stúlkan hafi svo farið í baklás, grátið og „límt“ sig við fósturföður þegar hann ætlaði að yfirgefa stúlkuna með föður en hafi svo náð að jafna sig en sest í fang eftirlitsaðila. Næsta umgengni hafi átt sér stað þann 9. ágúst 2022 og komi fram í skýrslu eftirlitsaðila að stúlkan hafi aftur „límt“ sig við fósturföður sinn þegar hann ætlaði að yfirgefa hana með föður í umgengni.

Samkvæmt 74. gr. a barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið er frá samningi um umgengni eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Starfsmenn hafi aflað afstöðu kærenda fyrir fund nefndarinnar og óskuðu kærendur eftir því að umgengni yrði tvisvar sinnum á ári. Tillögur starfsmanna eins og þær lágu fyrir á fundi nefndarinnar í greinargerð, dags. 26. október 2022, hafi verið þær að umgengni yrði tvisvar sinnum á ári í samræmi við óskir kærenda.

Í bókun starfsmanna þann 28. september 2022 komi fram að það væri mat starfsmanna að nauðsynlegt væri að viðhalda þeim stöðugleika, öryggi og ró í lífi stúlkunnar, enda séu það fyrst og fremst hennar hagsmunir.

Í úrskurði Barnaverndarnefndar P þann 8. nóvember 2022 tók nefndin undir það mat starfsmanna að stúlkan þyrfti ró og stöðugleika til þess að fá tækifæri til að treysta sínu nánasta umhverfi og aðlagast fósturfjölskyldu sinni og tilheyra þar sem stúlkan væri nú í varanlegu fóstri hjá þeim. Nefndin taldi þó ekki rétt að skerða umgengni eins og starfsmenn lögðu til og töldu rétt að umgengni yrði ákveðin fjórum sinnum á ári. Við þá ákvörðun hafi verið horft til þess að móðir stúlkunnar hefði ekki leitast eftir að eiga umgengni við stúlkuna og því hafi umgengni verið ákveðin fjögur skipti þar sem tengsl föður við stúlkuna væru einu tengsl hennar við kynforeldra. Frá því að málið var tekið fyrir þann 1. nóvember 2022 hafi sú staða breyst þar sem kynmóðir stúlkunnar hafi nú óskað eftir að eiga við hana umgengni.

Í kæru til úrskurðarnefndar sé gerð krafa um að úrskurði Barnaverndarnefndar P frá 8. nóvember 2022 verði hrundið og málinu vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá Barnavernd P.

Lögmaður kærenda vísi til þess að stúlkan sé í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum og hafi myndað sterk og kærleiksrík tengsl við kærendur. Kæran sé byggð á því að inntak þeirrar umgengni sem úrskurðað hafi verið um, geti ekki þjónað þeim markmiðum sem fóstrið byggir á, þ.e. að um sé að ræða varanlegt fóstur og markmið þess að stúlkan aðlagist fósturfjölskyldu sinni. Vísað sé til ítrekaðra forsendna í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála, þar sem meðal annars sé vísað til þess að umgengni kynforeldra við fósturbörn sé til þess að viðhalda tengslum en ekki styrkja þau. Þá bendi lögmaðurinn á að skýr greinarmunur sé gerður á tímabundnu fóstri og varanlegu fóstri í íslenskum rétti og að 34. gr. barnaverndarlaga veiti kynforeldrum þrönga undanþágu um að fá forsjársviptingu endurskoðaða.

Þá vísi lögmaður kærenda til þess að umgengni stúlkunnar við föður hafi ekki alltaf gengið vel og sá stöðugleiki sem virðist vera kominn á umgengni sé tilkominn vegna vinnu kærenda við að styrkja stúlkuna. Þá vísi lögmaður kærenda til þess óstöðugleika sem stúlkan hafi búið við og að ekkert bendi til að stúlkan sé í þörf fyrir svo tíða umgengni eins og barnaverndarnefndin hafi úrskurðað um þann 8. nóvember 2022.

Reglur vegna umgengni við barn í fóstri sé að finna í 74. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt 1. mgr. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Þá segir í 2. mgr. að foreldrar eigi sama rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun þess í fóstur. Í 25. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 komi fram að við ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best með því markmiði sem stefnt sé að. Í handbók Barnaverndarstofu varðandi umgengni í fóstri komi fram að við ákvörðun um umgengni barns í fóstri við kynforeldra sína eða aðra þurfi að meta í hverju einstöku tilviki þörf barnsins fyrir umgengni og hvaða áhrif umgengnin hafi á það. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þá skuli taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 74. gr. a. barnaverndarlaga skal ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið sé frá samningi um umgengni eða kveðinn upp úrskurður um umgengni.

Í greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 26. nóvember 2022, sem lá fyrir á fundi nefndarinnar þann 1. nóvember 2022, kom fram það mat starfsmanna barnaverndar að það væru ótvíræðir hagsmunir stúlkunnar að takmarka umgengni við föður frá því sem áður var. Stúlkan væri, þrátt fyrir ungan aldur, búin að ganga í gegnum ýmislegt, til dæmis ítrekaðar vistanir utan heimilis. Þá hafi verið vísað til matsgerðar sálfræðings, dags. 20. ágúst 2021, þar sem fram komi síendurtekin rof á samskiptum stúlkunnar og föður sem hafi haft þau áhrif að tengsl þeirra hafi smám saman þróast í þá átt að verða blendin og óörugg og að tengslarof sé til þess fallið að kveikja á óttakerfi stúlkunnar.

Barnaverndarnefndin hafi tekið undir þetta í úrskurði sínum og talið að stúlkan þyrfti ró og stöðugleika til þess að fá að treysta sínu nánasta umhverfi og aðlagast fósturfjölskyldu sinni. Faðir hafði fram að þeim tíma átt umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði. Nefndin hafi ekki talið sig geta horft fram hjá því að tengsl stúlkunnar við kynforeldra hafi eingöngu verið við föður á þeim tíma er úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp og því talið rétt að faðir ætti umgengni við stúlkuna í fjögur skipti á ári. Að öðru leyti hafi nefndin tekið undir fyrrgreint mat starfsmanna og talið mjög brýnt að stúlkan fengi ró og frið í fóstrinu. Nefndin telur það vera rétt stúlkunnar að þekkja uppruna sinn og viðhalda þeim tengslum sem hún á við föður, sbr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Við þetta mat hafi nefndin horft til þess að umgengni stúlkunnar við föður yrði að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt væri að með ráðstöfun hennar í fóstur. Nefndin hafi því úrskurðað að faðir ætti umgengni við stúlkuna í fjögur skipti á ári og að umgengni færi fram á O og undir eftirliti.

Með vísan til alls framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd P þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða föður

Faðir stúlkunnar mætti ásamt lögmanni á fund barnanefndarnefndarinnar þann 1. nóvember 2022. Lögmaður föður sagði á fundinum að það væri mat föður að umgengni hefði gengið vel undanfarið. Gögn málsins bentu til þess að stúlkan væri að taka miklum framförum tilfinningalega, í málþroska og að öðru leyti. Ekkert benti til þess að þetta myndi ekki halda áfram þótt aðstæður yrðu óbreyttar með tilliti til umgengni og því ekkert sem mælti því í mót að umgengni héldi áfram í óbreyttu horfi. Að mati lögmanns föður þyrftu barnaverndaryfirvöld að sýna fram á að umgengni væri bersýnilega ósamrýmanleg markmiði  með vistun og gengi gegn hagsmunum stúlkunnar. Krafa föður væri því sú að umgengni yrði óbreytt en til vara að lágmarki fjórum sinnum á ári. Vísaði lögmaður því til stuðnings að móðir stúlkunnar ætti ekki umgengni við hana og því væri enn mikilvægara að stúlkan ætti ríkulega umgengni við föður vegna tengsla þeirra.

Í greinargerð lögmanns föður, dags. 1. nóvember 2022, kemur fram að umgengni kynforeldra við börn í fóstri sé sjálfstæður réttur í samræmi við mannréttindarákvæði og alþjóðasamninga um að foreldri eigi rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barns og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Þá sé í greinargerð vísað til hagsmuna barnsins og þeirrar meginreglu í barnaverndarstarfi um að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem séu barni fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, og það sé mat föður að svo afgerandi takmörkun á umgengni hans frá því sem áður var, sé barninu ekki fyrir bestu.

V. Afstaða barns

Talsmaður stúlkunnar ræddi við hana þann 27. október 2022 um umgengni við föður. Samkvæmt skýrslu talsmanns, dags. 28. október 2022, var stúlkan viðræðugóð og skýr við talsmann. Stúlkan sagðist þekkja föður sinn en tók fram að hún ætti „nefnilega tvo pabba og líka tvær mömmur.“ Stúlkan sagðist hlakka til að hitta föður sinn og alveg vilja gista hjá honum en fas hennar breyttist og virtist stúlkan sjá að sér, varð ókyrr og vildi svo frekar leika  með leikföng en að ræða við talsmann. Talsmaður taldi ekki gagnlegt að ræða frekar við stúlkuna um umgengi við föður þar sem stúlkan gaf það skýrt til kynna, að mati talsmanns, að umræðunni væri lokið af hennar hálfu.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar P. Kærendur eru fósturforeldrar stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði frá 8. nóvember 2022 var ákveðið að faðir hefði umgengni við stúlkuna fjórum sinnum á ári, í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni færi fram í húsnæði á vegum barnaverndaryfirvalda á O í febrúar, maí, ágúst og nóvember ár hvert. Í forsendum hins kærða úrskurðar kemur fram að umgengni föður við stúlkuna þurfi að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun hennar í varanlegt fóstur. Það sé mat barnaverndarnefndarinnar að tillaga starfsmanna barnaverndar um umgengni tvisvar á ári fullnægi ekki því markmiði að stúlkan fái tækifæri til að viðhalda þeim tengslum sem hún eigi við föður sinn.

Kærendur krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og málinu vísað til nýrrar málsmeðferðar. 

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við föður á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kærenda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar. Samkvæmt gögnum málsins er stúlkan í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum sínum og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar P.

Samkvæmt gögnum málsins hefur stúlkan búið á núverandi fósturheimili frá því í desember 2020. Fram að þeim tíma bjó hún við mikinn óstöðugleika í umsjá foreldra. Stúlkan á að baki fimm vistanir á vistheimili barna en stúlkan var vistuð hjá föður á grundvelli b-liðar 67. gr. barnaverndarlaga frá 18. nóvember 2019 til 19. maí 2020. Þeirri vistun lauk þremur mánuðum fyrr en áætlað var vegna neyslu föður. Stúlkan er nú í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við föður. Í greinargerðum starfsmanna sem lagðar voru fyrir barnaverndarnefnd kemur fram það mat þeirra að það séu ekki hagsmunir stúlkunnar að eiga mikla umgengni við föður. Telja þeir mikilvægt að stúlkan fái frið og tækifæri til að viðhalda þeim stöðugleika, öryggi og ró sem sé að komast á líf hennar.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið Barnaverndarnefndar P og telur það þjóna hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við föður verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem hún er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er tilgangurinn að tryggja hagsmuni stúlkunnar og öryggi.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni föður við stúlkuna hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar P.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar P frá 8. nóvember 2022 varðandi umgengni D, við E, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum